APPELSÍNUR

article-top

APPELSÍNUR

Appelsínutrén eiga uppruna sinn að rekja til Suður-Kína og Indlands og voru í fyrstu ýmis konar ilmefni aðallega unnin úr appelsínunum. Talið er að fyrstu appelsínurnar hafi borist til Spánar frá Afríku með Márum á 10. öld og er Valenciahéraðið nú eitt aðalframleiðslusvæðið fyrir appelsínur í Evrópu. Það orð sem notað er yfir appelsínur í spænsku, ´naranja´ er væntanlega komið frá Indlandi, en þar var orðið ´naranyan´ notað yfir appelsínur og merkir það innri ilmur.

 

Appelsínurnar sem ræktaðar eru í Valencia héraðinu eru sætar og safaríkar, en á öðrum svæðum eru þær oft súrari og bitrari á bragðið. Margir eru með sín eigin appelsínutré í garðinum eða í potti á svölunum. Ef ekki má alltaf fá lánaðar appelsínur hjá nágrannanum og færa honum síðan krukku af góðu appelsínumauki í staðinn.

Appelsínur eru algengar í spænska eldhúsinu og spænska amman lumar á ýmsum ljúffengum hugmyndum um hvernig þær megi nota í hina ýmsu rétti. Sennilega er ein sú auðveldsta að skera þær niður í sneiðar og hella sýrópi eða bræddu súkkulaði yfir og bera fram með vanilluís. Eða jafnvel bara að pressa úr þeim safann og setja í fallegt glas og hella þurru Cava yfir og njóta Mímósunnar.

Ýmsar leyniuppskriftir af appelsínumauki finnast líka í uppskriftasafni spænsku ömmunnar og hér fylgir ein auðveld og góð og er jafn nauðsynlegt að eiga krukku af því í ísskápnum og tómatsósu enda má nýta þetta appelsínumauk á marga vegu.

2 kg. (ca. 12 stk.) appelsínur
2 sítrónur
1 ½ kg sykur (gott að nota 1 kg. hvítan sykur eða sultusykur + ½ kg. hrásykur eða púðursykur)
1 lítri vatn
2-3 kanilstangir (má líka nota vanillustangir)

SVONA GERUM VIÐ:
1. Þvoum appelsínur og sítrónur vel. Skerum í tvennt og svo aftur í tvennt og síðan í þunnar sneiðar. Tökum steinana úr.
2. Setjum ávextina í stóran pott, bætum sykri ofan á og síðan vatninu. Kanilstangir settar í pottinn.
3. Látið suðuna koma varlega upp og sjóðið á vægum hita í ca. klukkustund. Ef lokið er haft á allan tímann verður maukið þynnra, en aðeins þykkara ef lokið er tekið af í lok suðutímanns.
4. Maukum í pottinum með töfrasprota, mikið eða lítið eftir því hvort maukið á að vera fínt eða gróft. Muna að taka kanilstangirnar upp úr áður.
5. Setjum maukið heitt í hreinar og fallegar krukkur og lokum. Látum kólna á borðinu. Geymist í ísskáp í allt að 6 mánuði.

HVERNIG NOTUM VIÐ APPELSÍNUMAUKIÐ?


• Með ristuðu brauði, á kex eða með ostum.
• Með krydduðum mat, td. indverskum.
• Skellum 2-3 msk. á pönnuna í lokin þegar við brúnum kartöflur.
• Í sósuna með kjúklingi, önd eða lambakjöti.
• Marinerum kjúklinginn í appelsínumaukinu áður en hann er settur á grillið.
• Afþýðum rækjur, hellum appelsínumauki yfir og kælum. Gott með ristuðu brauði.
• Hrærum saman við hreina jógúrt eða sýrðan rjóma og berum fram með ferskum niðurskornum ávöxtum.
• Smyrjum yfir brúnu skúffukökuna áður en við setjum súkkulaðikremið ofan á.
• Á vöfflur eða pönnukökur.
• Út á ís, best með vanillu- eða súkkulaði ís.
• Blöndum saman við þeyttan rjóma sem síðan er settur yfir mulinn marenge.

Endalaust fleiri hugmyndir eru fyrir gott appelsínubragð, bara prófa sig áfram.

NJÓTIÐ ÞESS AÐ VERA HEIMA

SÓLRÍKAR SUMARKVEÐJUR
 
– http://www.spanareignir.is

Til baka