Afþreying

Á SPÁNI ER MIKIÐ ÚRVAL AF SKEMMTILEGRI AFÞREYINGU

GOLF

 

Golf er frábær íþrótt fyrir alla aldurshópa og er sú íþrótt sem vaxið hefur hvað mest í vinsældum undanfarin ár.

Costa Blanca og Costa Calida eru kjörin svæði fyrir golfáhugafólkið enda er þar að finna mikið úrval frábærra golfvalla fyrir öll getustig og ættu allir golfarar að geta fundið sér völl við hæfi. Það er hægt að velja á milli yfir 30 golfvalla á svæðinu.

Murcia hérað er í næsta nágrenni og hefur það svæði verið nefnt framtíðar golfparadís Evrópu, enda fjölmargir golfvellir í byggingu þar til viðbótar þeim sem nú þegar hafa verið teknir í notkun.

Svæðið er fullkomið fyrir íslenska golfara því vegna hins frábæra loftslags er hægt  að spila golf í góðu veðri allan ársins hring. 

 

SMELLA HÉR TIL AÐ SKOÐA VINSÆLUSTU GOLFVELLINA

 

 

 

VERSLANIR OG ÚTIMARKAÐIR

Mikið úrval frábærra verslana er á svæðinu. Nýlega opnaði ný og glæsileg verslanamiðstöð rétt ofan við La Zenia ströndina, La Zenia Boulevard. Þar er að finna fjölmargar vinsælar verslanir, t.d. stóra og glæsilega H&M verslun með miklu úrvali fyrir herra, dömur og börn, einnig Zara, Primark, Laura Ashley, fjölmargar skóbúðir, ódýra stórmarkaði og vandaðar sérverslanir. Auk þess eru fjölmargir veitingastaðir, kaffihús og barir í La Zenia Boulevard, skemmtitæki og leiksvæði fyrir börnin og svo mætti lengi telja.


Í Torrevieja eru fjölmargar góðar verslanir, verslanamiðstöðin Habaneras, og ýmsar sérfverslanir. Á svæðinu eru útimarkaðir þar sem hægt er að gera verulega góð kaup í matvöru og fatnaði og ýmsu öðru og svo mætti lengi telja.

VEITINGASTAÐIR OG SKEMMTISTAÐIR


Spánverjar eru miklir sælkerar í mat og drykk og í spænskri matargerð má finna mikla fjölbreytni. Áhersla er lögð á ferskt og gott hráefni og fallega framsetningu.

Matarmenningin á Costa Blanca og Costa Calida svæðinu er mjög fjölbreytt og spennandi enda búa þar margir ólíkir menningarhópar. Veitingahúsaflóran er fjölbreytt, spænskir, ítalskir, indverskir, ungverskir, tailenskir, kínverskir, sænskir og argentískir staðir og svona mætti lengi telja.

Mikið er af skemmtistöðum og börum þar sem hægt er að sitja og fá sér kokteil eða dansa fram eftir nóttu.

Einnig eru til staðar notalegir og fjölskylduvænir veitingastaðir þar sem fjölskyldufólk getur setið fram eftir kvöldi með börnin með sér og oft er boðið upp á ýmis leiktæki og skemmtiatriði.

Sjá nánar: Matur og menning


SKÍÐI

Frábær skíðasvæði eru í innan við fjögurra tíma akstur frá Costa Blanca og Costa Calida. Þá er ekið sem leið liggur upp í Sierra Nevada fjöllin þar sem blasa við fallegar skíðabrekkur og notaleg skíðahótel. Þetta er eitt syðsta skíðasvæði Evrópu og nýtur mikilla vinsælda vegna frábærra veðurskilyrða og hagstæðs verðlags. Það er því hægt að taka með sér sundföt, golfsett og skíði í sömu ferðina.

KÖFUN

Sjávarhiti við Costa Blanca og Costa Calida er frá 14°C á veturna og allt að 27°C á sumrin. Fjölmargir fallegir köfunarstaðir eru á svæðinu, og má þar finna t.d. gömul skipsflök og stórfengleg neðansjávar hellakerfi. Hægt er að fara á sérstök köfunarnámskeið með völdum kennurum. Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt og skella sér á köfunarnámskeið á Spáni?

SIGLINGAR

Costa Blanca og Costa Calida strandlengjan er paradís þeirra sem unna siglingum og vatnaíþróttum. Hægt er að læra á vatnaskíði, leigja þau og leika sér.

Einnig eru í boði stuttar og lengri sjóferðir til hinna ýmsu staða. Við mælum með að leigja skemmtisnekkju fyrir smærri hópa, 6-10 manns og sigla þangað sem hugurinn girnist. Hægt er að fara í dagsferðir eða lengri ferðir. Áhöfn og kokkur fylgir með, þannig að hægt er að dvelja um borð og njóta þar fullrar þjónustu, auk þess sem gaman er að leggja að bryggju í fallegri höfn og njóta þess besta í mat og drykk á einhverjum af þeim fjölmörgu sjávarréttarveitingastöðum sem þar er að finna. Frábær upplifun sem seint gleymist.

MOTOCROSS

Á Spáni eru ýmsar mótoríþróttir vinsælar og má þar t.d. nefna mótorhjól og fjórhjól. Spánverjar eru mjög framarlega í heiminum í mótorsporti og kemur því ekki á óvart að á Costa Blanca svæðinu er að finna nokkrar motocross brautir. Í Albacete, sem er lítil borg inni í landi, er mekka motocross manna. Þar eru margar brautir þar sem haldin hafa verið alþjóðleg stórmót í motocrossíþróttinni. Það færist stöðugt í vöxt að Íslendingar sæki motocross skóla á Costa Blanca svæðinu, en einn virtasti skóli heims sem er í eigu fyrrum heimsmeistara í motocrossi er starfræktur á svæðinu.

Fyrir þá tækjaóðu er á nokkrum stöðum hægt að leigja sér fjórhjól og fara í skipulagðar fjórhjólaferðir. Slíkt er t.d. í boði nærri Torrevieja.

FÓTBOLTAFERÐIR

Vilt þú komast á fótboltaleik? Spænska deildin hefur aldrei verið jafn skemmtileg. Í hvaða liði eru þínar stjörnur? Barcelona, Real Madrid, Valencia eða Murcia. Hægt er að komast á fótboltaleiki og upplifa einstaka stemmingu.

GO-KART


Það eru nokkrar Go-kart brautir á svæðinu þar sem bæði ungir sem aldnir geta reynt á aksturshæfileika sína en á þessum brautum eru til leigu miskraftmikilir Go-kart bílar eða allt eftir aldri og getu hvers og eins.

VÍNSMÖKKUN

Mikil vínrækt er þegar ekið er inn í landið frá Costa Blanca og Costa Calida strandsvæðinu. Þar er hægt að hitta vínbændurna, smakka á vínunum þeirra og kaupa framleiðsluna á hagstæðu verði. Einstök og skemmtileg upplifun.

Einnig er hægt að skoða olívurækt og kynnast framleiðslu á úrvals olívuolíu, smakka og kaupa á hagstæðu verði.


TUNGUMÁLANÁMSKEIÐ

Villtu læra spænsku á Spáni? Í boði eru spænskunámskeið fyrir fólk á öllum aldri allt frá byrjendum til lengra kominna, einkatímar og hópnámskeið. Ókeypis spænskutímar eru í boði fyrir þá sem flytja til Spánar.
Lærðu spænsku á Spáni og njóttu lífsins um leið.

DEKUR OG SPA

Yndisleg upplifun fyrir fólk á öllum aldri.

Við mælum með dekur og spa meðferðum á Hotel La Laguna í Dona Pepa. Þar er í boði frábær aðstaða fyrir dekur á sál og líkama, fjölmargar spa-meðferðir, nudd, bakstrar, maskar, andlits og fótsnyrtingar. Einnig er hægt að slaka á í fallegum sundlaugargarði og snæða ljúffenga máltíð hvort heldur sem er í hádegi eða að kvöldi. Ógleymanleg upplifun sem endurnærir og hleður batteríin.

SKEMMTI- SUNDLAUGA- OG DÝRAGARÐAR

Um 2 tíma frá Torrevieja er einn af frægustu og þekktustu skemmtigörðum Evrópu, Terra Mitica. Garðurinn er þemagarður með tívolítækjum, vatnstækjum og alls kyns sýningum. Þar er hægt að finna eitthvað við hæfi allra, bæði fyrir unga jafnt sem aldna.

Aquapolis er sundlaugargarður staðsettur í Torrevieja þar sem boðið er upp á rennibrautir fyrir þá allra djörfustu og einnig grunnar barnalaugar. Aðrir sundlaugagarðar í næsta nágrenni eru Aqua Park og Aqualandia, sem er stærsti vatnagarður á Costa Blanca svæðinu og einn sá stærsti í Evrópu. Þar er mikið úrval af skemmtilegum vatnaleikstækjum fyrir alla fjölskylduna.

Rio Safari er vinsæll dýragarður sem er í um 10 mínútna fjarlægð suður af Alicante. Þar er hægt að fara á úlfaldabak og fílabak, fara á alls kyns sýningar og skoða framandi dýr. Einnig er boðið upp á annars konar afþreyingar þar eins og t.d. Go-Cart.

Safari Aitana er annar dýragarður rétt norðan við Alicante. Þar er hægt að keyra inn á milli villtra dýra en að öðru leyti er hann svipaður Rio Safari dýragarðinum.

ANNAÐ

Möguleikarnir eru endalausir og ætti engum að leiðast í fríinu sínu á Spáni. Auk þess sem hér að ofan hefur verið talið upp er hægt að fara í hjólatúra, í safari jeppaferðir, á bananabáta, á sjóskíði, í sjóstangaveiði, á nautaat og fleira.