Golf

   

LA FINCA

La Finca golfvöllurinn þykir með betri golfvöllunum á svæðinu, enda hannaður með það fyrir augum að geta haldið allar helstu golfkeppnir í Evrópu. Völlurinn stendur við 5* hotel, La Finca Golf and Spa Resort, en á svæðinu er líka gott úrval vandaðra eigna fyrir þá sem vilja búa á golfvellinum.

Völlurinn er 18 holur, par 72 og þykir nokkuð langur, rúmir 6.000 metrar. Hann er með nýrri golfvöllunum á svæðinu, opnaður árið 2002 og hannaður af Pepe Gancedo, sem fékk nokkuð frjálsar hendur við verkið. La Finca þykir sérlega fallegur golfvöllur, breiðar brautir og fjölbreyttar flatir, þar sem betra er að undirbúa vel hvert einasta pútt, til að skemma ekki skorið. Fallegar vatnshindranir eru á nokkrum brautum, og er betra að hafa nokkrar aukakúlur í pokanum, ef á þarf að halda. Þeir sem ná löngum upphafshöggum eru vanalega í essinu sínu á La Finca. Völlurinn er vel staðsettur umvafin fjallasýn og náttúrufegurð.

Að loknum golfhring er dásamlegt að setjast niður í glæsilegu nýju klúbbhúsinu á La Finca og fá sér hressingu og horfa yfir svæðið.

 

 

  

LAS COLINAS

Las Colinas golfvöllurinn er án nokkurs vafa sá golfvöllur á Costa Blanca svæðinu sem enginn alvöru golfari má láta fram hjá sér fara. Hann er meðal 100 bestu golfvalla í Evrópu og hefur margoft verið valinn einn besti golfvöllurinn á Spáni.

 

Völlurinn er hannaður af landslagsarkitektinum Cabell B. Robinson og við hönnun vallarins var áhersla lögð á að hann félli vel að fallegu landslaginu og að utanaðkomandi áreiti sé í lágmarki. Margar holurnar eru einstaklega fallegar og hrein unun að spila. Einnig mælum við með æfingasvæðinu og alltaf er gaman að skoða nýjustu golftískuna í golfbúðinni. Þar er gott úrval af vönduðum golfvörumerkjum.

 

Las Colinas er tæplega 5.600 metra langur og par 71. Völlurinn liggur niðri í fallegum dal, umlukinn skógivöxtnum hæðum og er því einstaklega gróinn og fallegur. Hver hola er sérstök og skapar það ákveðna eftirvæntingu í hvert sinn sem völlurinn er spilaður.

Það er Troon fyrirtækið sem sér um rekstur og viðhald vallarins og kunna þeir vel til verka þar sem þeir sjá um umhirðu margra af 100 bestu golfvöllum í heiminum og er hugsað vel um öll smáatriði. Las Colinas golfvöllurinn er einn af nýrri völlunum á Costa Blanca svæðinu og var tekinn í notkun árið 2010. Hann hefur verið notaður í evrópsku mótaröðinni.


Eftir góðan golfhring er notalegt að setjast niður í fallegu klúbbhúsinu á Las Colinas og fá sér hressingu og fylgjast með golfurunum pútta 18. holuna.

 

 

 

     

 

LAS RAMBLAS

Þennan golfvöll þurfa allir alvörugolfarar að prófa amk. einu sinni um æfina. Þessi golfvöllur er ekki allra, annað hvort hatar þú völlinn eða elskar hann. Allavega er þetta golfvöllurinn fyrir golfara sem vilja taka áhættur, en geta líka valið auðveldari leiðir.

Völlurinn var opnaður árið 1991, hannaður af Pepe Gancedo. Hann er ca. 5.800 metra langur og par 72. Hönnun vallarins er sérlega skemmtileg, holurnar fjölbreyttar og bjóða upp á ýmis erfiðleikastig.

Þennan golfvöll er bæði hægt að fara á golfbíl eða ganga hringinn, sem skapar fjölbreytni í upplifun.

Las Ramblas golfvöllurinn þykir einstaklega fallegur, með mikla náttúru og grænan gróður. Tré og gil eru stundum fyrir golfaranum, en þegar maður sigrast á vellinum skapar það tilfinninguna um að langa að koma strax aftur.

En eitt er víst, að ef þú hefur einu sinni spilað Las Ramblas er það völlur sem þú manst alltaf eftir.

Eftir góðan golfhring er svo ekkert betra en að setjast niður í klúbbhúsinu og fá sér hressingu. Útsýnið þaðan yfir æfingasvæðið, 1. holu og vatnið á 9. holunni er dásamlegt og ekkert betra en að slaka á í eftirmiðdagssólinni og fylgjast með iðandi golfmannlífinu þar.

 

 

 

LO ROMERO
Þessi golfvöllur er í flokki vinsælustu golfvallanna á svæðinu. Hann er nokkuð nýlegur, opnaður árið 2008, og er því tæknilega vel hannaður. Fyrri 9. holurnar  falla nokkuð vel inn í náttúrulegt landslagið, en seinni 9. eru meira manngerðar og bjóða upp á ýmsar leiðir að glíma við.
Staðsetning og umhverfi vallarins er notaleg og falleg, gróið og stutt frá strandlengjum Costa Blanca og Costa Calida og er völlurinn umvafinn appelsínu og sítrónutrjám.


Lo Romero er hannaður af þeim Jorge Gallén og Enric Soler, par 72 og um 6.060 metra langur. Hann reynir á fjölbreytta hæfileika kylfingsins og flestar kylfurnar í pokanum, og gerir það hann skemmtilegan og krefjandi, en samt þægilegan og gefandi.
Eftirminnilegasta hola vallarins er án efa 18. holan og og það er góð tilfinning í lok leiks að ná inn á eyjuna og heyra boltann rúlla ofan í holuna. Takist það ekki langar manni strax til að koma aftur og reyna við þessa holu á ný.

 

  

VILLAMARTIN

Hér erum við komin á einn elsta golfvöllinn á Costa Blanca svæðinu, en völlurinn var opnaður árið 1972. Hann er því vel gróinn og fallegur og oft nefndur “old school” völlurinn á svæðinu. Völlurinn er hannaður af Paul Putman, rúmlega 6.000 metra langur og par 72. Þetta er völlur sem hentar vel flestum miðlungs golfurum, þó þeir sem lengra eru komnir hafi ýmislegt skemmtilegt að glíma við. Hönnun vallarins er þannig að hann hentar báðum kynjum vel og er því vinsæll hjóna og para völlur. Margar brautir liggja upp brekkur, sem reynir oft á hæfni golfarans.

 

Fyrri 9 holur vallarins liggja fremur hátt og bjóða oft upp á glæsilegt útsýni en seinni 9 holurnar liðast um lítinn dal og eru því skjólgóðar og umhverfið notalegt. Völlurinn býður því upp á skemmtilega fjölbreytni og það er nauðsynlegt að spila hann nokkrum sinnum til að meðtaka hann og njóta hans til fulls. Ekki skemmir að skoða vel áður hvernig brautirnar liggja, til að auka líkurnar á góðu skori.

 

Eftir leikinn er notalegt að setjast niður í klúbbhúsinu eða veröndinn þar fyrir framan og njóta matar og drykkjar og margir fara ekki heim fyrr en þeir eru búnir að bóka næsta hring.

 

  

 

VISTABELLA

Vistabella golfvöllurinn hefur sinn eigin karakter. Þar er að finna einstakt umhverfi og fellur golfvöllurinn sérlega vel inn í landslagið. Hönnuður vallarins er Manuel Pinero, mjög reyndur golfari og hefur hann spilað marga af bestu golfvöllum í heiminum, og nýttist sú reynsla honum vel við hönnun Vistabella.

Vistabella er með nýrri golfvöllunum á svæðinu, opnaður árið 2010 og var fyrst aðeins 9 holur, en hefur nú verið stækkaður í 18 holur, par 73. Völlurinn er tæplega 6.000 m langur og þykir sérlega skemmtilegur í leik. Hann hentar bæði reyndum golfurum og þeim sem styttra eru komnir, og er talinn einn best hannaði golfvöllur Spánar. Þar skiptast á gróin svæði með fallegum barrtrjám og krefjandi vatnshindranir, svo eitthvað sé nefnt.

Eftir golfhringinn er kjörið að setjast niður í klúbbhúsið, fá sér hressingu og fara yfir skorið.


Vistabella er golfvöllur sem gaman er að heimsækja aftur og aftur.