Kostnaður við kaupin

LÁN TIL FASTEIGNAKAUPA Á SPÁNI

Hægt er að fá lán í spænskum bönkum fyrir allt að 70% af kaupverði eignarinnar með veði í eigninni sem keypt er á Spáni og aðstoðum við viðskiptavini okkar við að fá lánatilboð frá mismunandi bönkum, til að tryggja að hagstæðustu lánakjörin fáist hverju sinni.Lántökunni fylgir ákveðinn kostnaður, sem þó getur verið mismunandi eftir því í hvaða banka lánið er tekið. Helstu kostnaðarliðir eru þessir:

 1. Vextir eru á bilinu 1.75 – 4.5%, óverðtryggðir. Algengast 2.5-3.5%. Vextir geta verið fastir í ákveðinn árafjölda, eða breytilegir, með álagi á EURIBOR. Hér er hægt að skoða lánareikni til að reikna út afborganir af lánum miðað við ýmsar forsendur. LÁNAREIKNIR
 2. Lánstími getur verið allt að 30 ár, en hann fer eftir aldri lántakenda. Samanlagður lánstími og lífaldur má ekki vera meiri en 75 ár, þe. 50 ára getur fengið allt að 25 ára lán, en 60 ára lán til 15 ára. Ef fleiri en einn kaupa eignina er oftast miðað við aldur þess yngsta. Þó geta verið frávik frá þessari reglu.
 3. Þinglýsingargjald vegna lántöku er 1.5% af lánsfjárhæð.
 4. Lántökugjald vegna lántöku er oftast 1-1.5% af lánsfjárhæð.
 5. Greiða þarf fyrir verðmat banka á eigninni og getur sá kostnaður numið 150-400 Evrum eftir stærð og staðsetningu eignar. Bankamatið á verðmæti eignarinnar getur stundum verið annað en kaupverðið, þá er oftast miðað við veðhlutfall á lægri upphæðina, en þó lána sumir bankar eingöngu út á sitt eigið bankamat og getur þá lánshlutfallið stundum orðið hærra, ef bankamatið er hærra en kaupverðið.
 6. Margir bankar fara fram á að lántakar taki líf- og/eða sjúkdómatryggingu til að tryggja endurgreiðslu láns, falli lántakinn frá eða veikist og geti ekki greitt af láninu. Líftryggingin greiðir þá upp lánið og eignin erfist skuldlaus. Kostnaður við líftrygginguna getur verið mismunandi eftir bönkum. Sumir bankar fara fram á eingreiðslu iðgjaldsins við lántöku en aðrir dreifa því á lánstímann.
 7. Uppgreiðslugjald á láni ef lán er greitt upp, t.d. vegna sölu eignarinnar, er 0.5-1% og getur farið neðar ef langt er liðið á lánstímann. Þetta er þó aðeins mismunandi eftir bönkum. Hægt er að greiða inn á lánin á lánstímanum og þá lækka mánaðarlega greiðslubyrði eða stytta lánstímann. Lánin eru ekki verðtryggð og því lækka eftirstöðvar lánsins við hverja mánaðarlega afborgun, þannig að líta má á fasteignakaup með lántöku sem ákveðna tegund sparnaðar.


Við aðstoðum við útvegun lána, allt eftir óskum viðskiptavina okkar. Til að fá lán þarf að fara í greiðslumat í spænska bankanum. Það getur verið mismunandi eftir bönkum hvaða gögn farið er fram á við lánsumsókn, en algengast er þó eftirfarandi:

 1. Afrit af launaseðlum síðustu 3-6 mánuði.
 2. Bankayfirlit síðustu 3 mánuði.
 3. Afrit af skattaskýrslu 1-3 ár aftur í í tímann.
 4. Staðfesting Credit Info á greiðsluhæfi.
 5. Staðfesting af greiðslubyrði lána á Íslandi.


Það getur verið mismunandi eftir bönkum hvort þessar upplýsingar þurfi að vera á ensku eða spænsku, og aðstoðum við viðskiptavini okkar við þýðingar gegn vægu gjaldi, sé þess þörf.


ANNAR KOSTNAÐUR VEGNA FASTEIGNAKAUPA Á SPÁNI

 1. Kostnaður vegna útvegunar á NIE númeri (spænsk kennitala sem kaupandi fasteignar verður að hafa) getur verið 100-150 Evrur fyrir hvert NIE númer.
 2. Kostnaður vegna stofnunar vatns- og rafmagnssamninga getur verið frá 200-900 Evrur eftir því hvort verið er að kaupa nýja eign eða endursölueign og einnig eftir staðsetningu.
 3. Húsgögn, rafmagnstæki og loftræstibúnaður. Sá kostnaður er yfirleitt frá 12-20.000 Evrur, en getur verið hærri eða lægri eftir stærð eignar og hversu dýr húsgögn og rafmagnstæki eru valin.
 4. Uppsetning internets, algengt 50-300 Evrur, eftir því hvað valið er. Mánaðargjald af sjónvarpi og nettengingu er algengast 20-40 Evrur á mánuði, eftir því hvað valið er.
 5. Umsýslugjald lögfræðings á Spáni getur verið mismunandi eftir umfangi kaupanna og hvaða þjónustu fólk vill fá. Gera má ráð fyrir að þessi kostnaður nemi um 1.000-1.800  Evrur vegna kaupanna.
 6. Við mælum með því að fólk geri erfðaskrá á Spáni um fasteignina á Spáni. Það getur auðveldað frágang erfðamála síðar. Kostnaður við gerð erfðaskrá er um 150 Evrur.
 7. Ennfremur verur alltaf að gera ráð fyrir 10% IVA (spænskur söluskattur) sem leggst ofan á kaupverð eignarinnar. Auk þess má gera ráð fyrir ca. 3% kostnaði vegna stimpilgjalda og annars kostnaðar við kaupin, þ.e. samtals getur kostnaður vegna skatta og stimpilgjalda við kaup á fasteign á Spáni því farið upp í ca.13%.REKSTRARKOSTNAÐUR FASTEIGNAR OG ÁRLEGIR SKATTAR

Gera má ráð fyrir því að rekstrarkostnaður fasteignar á Spáni að verðmæti um 150.000 Evrur sé um 150-300 Evrur á mánuði.

Algengustu kostnaðarliðir vegna reksturs fasteignarinnar eru eftirfarandi:

Húsfélagsgjald, „Community fee“, til að standa straum af sameiginlegum rekstrarkostnaði fasteignarinnar, t.d. ef um eign með sameign er að ræða. Í þessu gjaldi felst t.d. þrif og umhirða á sameiginlegum sundlaugargarði, þrif á sameign, rekstur lyftu, lýsing í sameign. Þessi kostnaður getur numið frá 30-100Evrur á mánuði.
Trygging á fasteigninni, oftast greitt einu sinni á ári. Upphæðin fer eftir stærð og staðsetningu eignarinnar og hvort um er að ræða nýja eða eldri eign. Fasteignatryggingar eru hagstæðar á Spáni, algengt um 300 – 600 evrur á ári.
Kostnaður vegna notkunar vatni, rafmagni og gasi (sé um það að ræða) fer eftir notkun.
Fasteignagjöld og eignaskattur er algengt um 150-500 Evrur á ári, fer eftir verðmæti, stærð og staðsetningu eigna.


ÖNNUR ÞJÓNUSTA

Við leggjum áherlsu á góða þjónustu við viðskiptavini okkar, bæði við val á fasteigninni, kaupferlið sjálft og eftir að kaupin hafa farið fram. Sú þjónusta felst t.d. í því að aðstoða við útleigu á fasteigninni, fasteignaumsjón, viðhald, breytingar og allt sem upp getur komið eftir að fólk er búið að koma sér fyrir á nýja heimilinu sínu á Spáni.

OKKAR STOLT ERU ÁNÆGÐIR VIÐSKIPTAVINIR.

ÁN ÞEIRRA HEFÐUM VIÐ EKKI GETAÐ SELT FASTEIGNIR Á SPÁNI SÍÐAN 2001.

VIÐ SEGJUM VIÐ VIÐSKIPTAVINI OKKAR:

EF ÞÚ ERT ÓÁNÆGÐUR, SEGÐU OKKUR ÞAÐ.

EF ÞÚ ERT ÁNÆGÐUR, SEGÐU ÖÐRUM FRÁ ÞVÍ..