Íslendingar sækja í sólina og sumarið á Spáni.

Íslendingar sækja í sólina og sumarið á Spáni.
Geli Hernandes De Blas, framkvæmdastjóri spænska byggingafyrirtækisins Euromarina, sótti nýverið Ísland heim til að kynna fjárfestingamöguleika og lífsstíl á Spáni. Hjá Euromarina starfar einnig Harpa Guðlaugsdóttir, sem annast fyrirgreiðslu fyrir íslenska viðskiptavini fyrirtækisins.

“Íslendingar sækja í sólina og sumarið á Spáni og eiga ótrúlega auðvelt með að aðlagast lífinu þar. Þrátt fyrir að koma svo langt úr norðri eru þeir miðjarðarhafslegir í hugsun, kunna að meta fallegt umhverfi og góðan mat og leggja mikið upp úr sterkum fjölskylduböndum.” Þetta segir Geli Hernandes De Blas, framkvæmdastjóri spænska byggingafyrirtækisins Euromarina, sem fyrir stuttu heimsótti Ísland til að kynna fjárfestingamöguleika og þægilegan lífsstíl á Spáni í samvinnu við Eignaumboðið og Spánareignir, umboðsaðila Euromarina á Íslandi.Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Geli heimsækir Ísland. “Ég kom hingað í fyrsta skipti fyrir tveimur árum og hélt þá sýningu í samvinnu við dr. Gunnar heitinn Schram lagaprófessor, sem þá var umboðsmaður Euromarina á Íslandi. Sú sýning vakti mikla athygli og varð til þess að ég fékk verulegan áhuga fyrir landinu og þeim tækifærum sem ég tel vera hér fyrir hendi. Í framhaldi af því réð ég íslenska stúlku til starfa hjá Euromarina á Spáni og með því að starfa nú með góðri íslenskri fasteignasölu tel ég okkur vera vel undirbúin undir það að sinna þörfum Íslendinga, enda leggjum við mikla áherslu á fagmennsku og góða þjónustu á öllum sviðum. Við höfum átt mjög gott samstarf með Eignaumboðinu, enda er þar fólk með mikla reynslu og góð sambönd.”

Kvennarekið fyrirtæki

Þar sem mikil umræða hefur verið um þátttöku íslenskra kvenna í stjórnunarstöfum, eða öllu heldur þátttökuleysi, vekur það athygli okkar að framkvæmdastjóri umfangsmikils og rótgróins byggingafyrirtækis á Spáni skuli vera kona. Aðspurð sagði Geli það ekki vera neitt einsdæmi. “Ég er búin að starfa hjá Euromarina frá því árið 1978, eða í 27 ár og líkar það mjög vel. Ég var ráðin til Euromarina í sumarstarf, nýútskrifuð úr menntaskóla með góða tungumálakunnáttu og ætlaði mér í frekara nám þá um haustið. Ég var þá beðin um að vera áfram og boðið gott starf í byggingardeildinni og fannst það freistandi. Jafnframt var ég fengin til að vera túlkur eiganda fyrirtækisins, sem er kona og er í dag ein mín besta vinkona. Ég lærði mikið af henni í sölumennsku og stjórnun, og fór fljótlega að starfa að sölu- og markaðsmálum í Sviss, þar sem við erum í dag með mjög sterka markaðshlutdeild. Í framhaldi af því fór ég að kynna fyrirtækið í Bretlandi og fleiri löndum Evrópu með góðum árangri og nú hefur Ísland bæst við á landakortið okkar. Ég fór því aldrei í framhaldsnám eins og ég hafði ætlað mér, en fyrirtækið hefur hvatt mig og styrkt í endurmenntun. Ég hef því getað verið ég sjálf og er mjög sátt við hvernig líf mitt hefur þróast.”Að sögn Geli er mikið lagt upp úr virkni og þátttöku starfsfólksins í allri ákvarðanatöku. “Hver dagur er ný reynsla og hvetur okkur til dáða. Við erum ekki bara að selja hús á Spáni, heldur lífsstíl. Viðskiptavinir okkar koma víða að, eru af ólíku þjóðerni og gera mismunandi kröfur. Það er því mikilvægt fyrir okkur að hlusta á viðskiptavinina, skilgreina þarfir þeirra og finna leiðir til að uppfylla þær. Hver þjóð hefur sínar áherslur og við erum til þess að leysa úr öllum vandamálum sem upp koma hverju sinni. Hvort heldur það er að hafa rétt útlit á gluggunum, benda á réttu golfvellina eða finna góða skóla fyrir börnin. Til þess er mikilvægt að hafa gott starfsfólk sem leggur metnað í að leysa úr öllum verkefnum á sem metnaðarfyllstan hátt. Við leggjum áherslu á að reka fyrirtækið sem mest með okkar eigin starfsmönnum, en ekki verktökum. Þannig fáum við betri yfirsýn og höfum betri stjórn á öllu frá upphafi til enda sem tryggir betri gæðastaðal til viðskiptavina okkar.”

Draumur varð að veruleika

Euromarina er fjölskyldufyrirtæki sem starfað hefur síðan 1972. Það var bóndasonurinn Justo Quesada Samper sem lagði grunninn að fyrirtækinu þegar hann lét rætast draum sinn um að byggja bæ þar sem fjölskyldur af mismunandi þjóðernum gætu búið saman í sátt og samlyndi og notið þess besta sem Spánn hefði upp á að bjóða. Markhópur hans voru Evrópubúar í leit að góðu loftslagi. Hann áttaði sig á því að þar þyrfti að fara saman góð staðsetning, þægindi, fegurð, þjónusta og tenging við spænska menningu. Hann byrjaði á því að kaupa lönd sem hentað gætu vel fyrir slíkan bæ og byrjaði síðan að byggja og í dag eru bæirnir Ciudad Quesada og Dona Pepa merkilegur minnisvarði um stórtæka drauma og metnaðarfullt ævistarf Justo Quesada Samper. Þar er að finna falleg hús með ræktuðum görðum, fjölda verslana og veitingastaða, pósthús, kirkju, almenningsgarða, útivistarsvæði, golfvöll, sundlaugargarð, hótel og fleira sem þarf til að gera bæ að bæ. Í dag rekur dóttir hans, Pepita Quesada, fyrirtækið ásamt fjölskyldu sinni, og heldur hún áfram af miklum dugnaði að skipuleggja ný hverfi og byggja hús sem henta kröfuhörðum útlendingum og í auknum mæli Spánverjum sjálfum.

Góðir fjárfestingamöguleikar

“Í dag er aðaláherslan lögð á vel staðsett, vel byggð og fallega hönnuð hús með öllum nútíma þægindum, eins og t.d. loftkælingu/hita og síma og tölvutengingum. Við erum fjárhagslega mjög sterkt fyrirtæki með sterka eiginfjárstöðu og getum boðið upp á ýmsar fjármögnunarleiðir. Á sýningunni sem við héldum um daginn var algengt að stórfjölskyldur væru að kaupa saman hús, en það kom líka skemmtilega á óvart hversu yngra fólkið, allt niður í 35 ára, er nú farið að velta fyrir sér þeim möguleika að ávaxta tekjur sínar með því að fjárfesta í húsnæði á Spáni. Við getum lánað allt að 80% af verðmæti eignarinnar á vöxtum frá 2,95% og eins og fasteignir hafa verið að hækka að undanförnu og lítur út fyrir að verði áfram, er þetta mjög þægileg leið til að fjárfesta. Það má heldur ekki gleyma því að á meðan peningarnir vinna fyrir fólk getur það notið þess að dvelja í húsunum sínum eða leigja þau út og fengið þannig enn betri ávöxtun. Það var greinilegt að Íslendingum líkar það sem við höfum upp á að bjóða enda eru þeir kröfuharðir neytendur. Við hlustum á þarfir þeirra og reynum stöðugt að gera betur. Við leggjum líka mikla áherslu á að öll smáatriði séu í lagi og að hver bygging hafi sín sérkenni og það virðist Íslendingum líka vel, því þeir vilja ekki allir vera eins. Hver vill vera svolítill kóngur í sínu ríki.”

Fleiri góð ár

Það færist nú stöðugt í vöxt að Norður-Evrópuþjóðir byggi elliheimili eða íbúðir fyrir eldri borgara í hinu góða loftslagi á Spáni. Einnig fjölgar stéttarfélögum og starfsmannafélögum sem fjárfesta vilja í orlofsíbúðum sem þá eru leigðar út til félagsmanna eða starfsfólks og má gera ráð fyrir því að sú þróun verði líka hér á landi. “Við getum byggt miðað við ýmsar sérþarfir ákveðinna hópa og við eigum nóg af landi. Spánverjar taka vel á móti útlendingum, þeir eru opnir og gefa mikið af sér. Það er því oft sagt að Norður-Evrópubúar megi búast við því að eiga fleiri góð ár ef þeir flytjast í betra lofslag á sínum efri árum. Verðlagið á Spáni er líka lægra en þeir eiga að venjast og það verður því hægt að lifa betra lífi af ellilífeyrinun.”Að sögn Geli hafa konur alveg sömu starfsmöguleika og karlar á Spáni. “Í okkar fyrirtæki er fyrst og fremst leitað eftir hæfileikum þegar ráðið er í störf, ekki er farið eftir kynferði. Við erum með margar konur í stjórnunarstöðum, en það ræðst helst af því að við leggjum áherslu á góða útfærslu á öllum smáatriðum, fagmennsku, þjónustulund og þolinmæði. Bæði kynin fá sömu laun fyrir sömu störf, það er eingöngu farið eftir starfsgetu í því sambandi. Í fyrirtækinu er mjög góður starfsandi og við reynum að starfa saman að því að leysa öll verkefni. Einkunnarorð Euromarina eru: ekki hafa áhyggjur af samkeppni, verum öðruvísi og gerum betur,” sagði Geli að lokum.

Á réttum stað á réttum tíma

“Örlögin réðu því að ég fór að vinna hjá Euromarina og ég sé ekki eftir því,” sagði Harpa Guðlaugsdóttir, íslensk stúlka sem starfað hefur hjá spænska byggingarfyrirtækinu Euromarina sl. 2 ár. “Bíllinn minn bilaði fyrir utan skrifstofu fyrirtækisins og ég fór inn til að biðja um hjálp. Þar voru allir boðnir og búnir að hjálpa mér og mér leist strax svo vel á fólkið og umhverfið að ég ákvað að athuga hvort ég gæti fengið vinnu þarna og dreif mig í að panta viðtal. Ég var þá strax kynnt fyrir framkvæmdastjóranum henni Geli og hún fór með mig inn á skrifstofu eigandans. Mér leist nú ekki alveg á blikuna, því ég var algjörlega ótilhöfð, í íþróttabuxum og strigaskóm. Eftir að hafa rætt lítilega við mig spurðu þær hvort ég gæti byrjað klukkan 9 morguninn eftir og ég hélt það nú. Ég var víst rétt manneskja á réttum stað á réttum tíma og það var mín heppni, því þetta er frábært fyrirtæki að vinna fyrir.”Harpa segist hafa dvalið mikið á Spáni með fjölskyldu sinni frá því að hún var lítil stelpa og alltaf líkað það vel. “Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að ég ætti eftir að búa á Spáni þegar ég yrði stór. Það kom því engum á óvart að ég ákvað að fara til Spánar og læra spænsku eftir stúdentsprófið. Ég fór út í febrúar og átti pantað far heim í apríl, en hér er ég enn fjórum árum síðar og ekkert á leiðinni heim. Ég heillaðist strax af Spáni, menningunni, fólkinu og lífsgæðunum. Þarna lifi ég miklu heilbrigðara lífi en ég gerði heima, borða hollari og betri mat, hreyfi mig meira og nýt lífsins á allan hátt. Loftslagið er svo gott og fólkið opið og lífsglatt. Ég hef aðlagast lífinu á Spáni mjög vel og hér líður mér vel og hér vil ég vera. Með því að starfa hjá Euromarina og sjá um íslensku viðskiptavinina held ég líka ákveðnum tengslum við Ísland og það er auðvitað frábært að vera í starfi sem býður upp á það.”

Gott fyrirtæki að vinna fyrir

Að sögn Hörpu er starfsumhverfið í Euromarina mjög gott. “Eigandi fyrirtækisins er kona, alveg frábær manneskja. Flestir yfirmenn eru reyndar líka konur, meira segja í tæknideildinni. Við erum eins og ein stór fjölskylda og allt snýst um að gera betur og betur. Við erum alltaf að fara yfir verkefnin, hvert einasta smáatriði er skoðað aftur og aftur til að athuga hvort eitthvað sé hægt að betrumbæta. Á vikulegum fundum hittast allir og ræða bestu lausnirnar, hvort heldur það er í tæknilegum útfærslum á byggingunum, frágangi íbúðanna, samskiptum milli starfsfólks eða þjónustu við viðskiptavinina. Það er hlustað á alla og það hvetur mann til að vera virkur og reyna að gera betur. Það er líka mjög góður starfsandi í fyrirtækinu, ef eitthvað bjátar á hjá manni eru allir vinir og boðnir og búnir að rétta hjálparhönd. Við leysum öll vandamál í sameiningu og það skapar mikið öryggi bæði fyrir starfsfólkið og viðskiptavinina.”

Gott að búa á Spáni

Það er oft leitað til Hörpu með ýmis mál og finnst íslenskum viðskiptavinum Euromarina mikið öryggi að því að þar skuli vera íslenskur starfskraftur. “Við erum í mjög góðu samstarfi við Eignaumboðið/Spánareignir, umboðsaðila okkar á Íslandi, og í sameiningu kappkostum við að veita viðskiptavinunum sem besta þjónustu. Það hefur gefist vel því við finnum fyrir mjög auknum áhuga Íslendinga fyrir því sem við höfum upp á að bjóða. Fólk er farið að leggja meira og meira upp úr lífsgæðum og hvernig hægt er að ávaxta peningana sína til þess að geta betur notið lífsins. Það er okkar sérgrein að aðstoða fólk í því sambandi. Við erum ekki bara að selja hús á Spáni heldur ákveðinn lífsstíl sem stöðugt verður vinsælli og vinsælli á meðal Íslendinga. Ég þekki það af eigin reynslu hversu gott er að búa hérna og mér finnst gott að geta miðlað af reynslu minni,” sagði Harpa Guðlaugsdóttir að lokum.

svg@mbl.is